„Versta sem gerist er að það gengur ekki upp“

Karin Kristjana Hindborg er eigandi vefverslunarinnar www.nola.is sem hún stofnaði í byrjun síðasta árs. Karin hefur lokið B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði og sama prófi í sænsku frá Háskóla Íslands. Samhliða skilum á lokaritgerð í háskólanum ákvað hún að láta gamlan draum rætast og læra förðunarfræði. En þá var ekki aftur snúið. Eftir að hafa starfað sjálfstætt og í snyrtivöruversluninni M.A.C, unnið sem vörumerkjastjóri hjá Clinique og eignast tvo drengi á einu og hálfu ári fékk hún þá hugmynd að hefja eigin rekstur. Vefverslunin Nóla byrjaði sem lítil hugmynd sem hefur vaxið hratt á innan við ári og spennandi hlutir eru framundan. 

Screen Shot 2015-03-06 at 13.47.12

Hvað varð til þess að þú stofnaðir vefverslunina www.nola.is?
Í rauninni byrjaði þetta hjá mér sem pínulítil hugmynd. Ég ætlaði að vera heima með eina vöru og þetta átti að vera ótrúlega einfalt. Síðan fór ég alveg á flug og þetta er búið að breytast mikið núna undanfarið. Nýjar hugmyndir spretta upp og þetta er svolítið að vaxa af sjálfu sér. Þetta er búið að vinda hratt upp á sig og orðið meira en  full vinna.

Hvernig myndirðu lýsa þér sem athafnakonu? 
Ég myndi segja að ég sé mjög góð í því að finna merki og vörur sem eiga eftir að gera það gott. Vörur sem ekki eru til á íslenskum markaði eins og er. Verandi með netverslun myndi ég samt segja að ég nái persónulegu og nánu sambandi við mína viðskiptavina. Ég svara öllum tölvupóstum og skrifa persónuleg skilaboð til hvers og eins, þakka fyrir viðskiptin eða skrifa skemmtileg komment. Ég legg mjög mikið í þá vinnu sem ég er að gera og pakka vörunum fallega inn því fyrsta upplifun segir svo mikið til um restina.

Varstu búin að ganga lengi með þá hugmynd að opna verslun í maganum?
Ekki netverslun en mig hefur alltaf langað til að vera með minn eigin rekstur. Þó að ég hafi ekkert endilega spáð í hvað það yrði. Ég er dugleg að skoða samfélagsmiðla og hvað er að gerast erlendis. Það hefur færst svo mikið í aukana erlendis að fólk panti sér af netinu. Þetta hefur ekki ennþá náð eins mikilli festu hérna á Íslandi þannig að ég sá svolítið gap á markaðnum. Mér fannst þetta einhvernveginn liggja beint við.

Hvað var það sem ýtti þér í að framkvæma hugmyndina?
Ég var í fullri vinnu hjá heildsölu sem selur snyrtivörur en missti vinnuna síðustu áramót. Þá fór ég svona að spá í því hvað ég gæti gert með það sem ég kann. Ég var ekki tilbúin að fara aftur í fulla vinnu sjálfstætt með tvö lítil börn. Þetta er rosalegt hark, mikil vinna og ekkert ofsalega barnvænn vinnutími. Ég fór líka að skoða mikið af vörum á netinu og velta fyrir mér af hverju þetta væri ekki til á Íslandi. Við erum öll að panta þetta að utan svo ég fór að hugsa að kannski væri bara málið að fara að flytja þetta inn. Ekki bíða eftir að einhver annar gerði það.

Hver er ástæða þess að þú ákvaðst að opna vefverslun frekar en hefðbundna verslun?
Ég vildi fá að aðlaga vinnuna að fjölskyldulífinu. Ég er með tvö lítil börn og mig langar að geta sótt þau í leikskólann á hverjum degi. Eins og allir foreldrar þekkja er mikil vinna í kringum börnin eins og foreldrafundir, læknisheimsóknir og jólaleikrit. Það er svo gott að geta ráðið sér sjálfur, geta stundað þetta allt án þess að þurfa að fá leyfi eða vera með samviskubit.

Hvernig er vinnutíminn hjá þér? 
Ég vinn eiginlega frá því ég opna augun og þangað til ég loka augunum. Ég er með skrifstofu niðri í bæ og tem mér það á morgnana þegar allir fara út úr húsi að mæta þangað. Þar er ég á venjulegum skrifstofutíma og er þá bara í vinnunni. En ég get auðvitað unnið hvar sem er og er oft heima að svara tölvupóstum. Við erum með reglu á okkar heimili að þegar við komum heim af leikskólanum og þangað til strákarnir fara að sofa að þá er ekki kveikt á tölvunni og við erum helst ekki í símanum. Það getur allt saman beðið.

Varstu einhvern tímann hrædd við að henda þér út í djúpu laugina með eigin rekstur?
Nei, mér finnst þetta bara svo hrikalega skemmtilegt og hef aldrei verið jafn hamingjusöm í vinnu. Mér finnst ég akkúrat vera á þeim stað sem ég á að vera núna. Það er samt eitt sem hræðir mig alltaf, það eru fjármálin. Ég fór á fund með bókaranum mínum áður en ég stökk út í djúpu laugina til að vera alveg gulltryggð, annars hefði ég ekki gert þetta. Ég er með snilling sem sér um fjármálin fyrir mig.

Smelltu hér til þess að lesa viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaðinu.

No Comments Yet

Comments are closed

 

LET'S GET SOCIAL!