Paris, c’est cool, non? #1

Háborgin er á fullu – tískuvikan fer að hefjast! Eftirvænting og stress í einni sæng. Hér má finna mína útgáfu af gátlista eða leiðarvísi og ég hef hugsað mér að gera mitt besta til að fylgja eigin ráðleggingum næstu daga. Flestar ef ekki allar samræður sem ég á í augnablikinu snúa á einhvern hátt að tískuvikunni og undirbúningi hennar. Ráðin eru eins misjöfn og þau eru mörg. Sem dæmi má nefna að ónefnd vinkona undirbýr sig fyrir átökin með því að drekka eingöngu glæra vökva; vatn og vodka leika þar lykilhlutverk…mais à chacun son goût!

Frasinn sem kemur til með óma í höfðinu á mér meðan á öllum látunum stendur er „après l’effort, le réconfort!“  (á eftir erfiði koma verðlaunin!).

19Andlitið / La visage
Nægur svefn og tveir til þrír lítrar af vatni á dag eru ekki raunin þegar stress og svefnlitlar nætur tískuvikunnar taka við. Þrennt skil ég ekki við mig um þessar mundir: Erborian Sleeping BB Mask,

Shu Uemura Depsea Water og andlitspappír frá Muji.
Næturmaskinn frá Erborian er jafn frábær og BB kremið þeirra, sem ég get ekki lifað án. Maskinn er settur á hreint andlitið og er ekki tekinn af fyrr en næsta morgun. Baldursbrá, rósmarín og kamilla geta víst gert kraftaverk fyrir þreytta og þurra húð.

Shu Uemura er eitt af uppáhalds snyrtivörumerkjunum mínum og það eru komin þrjú ár síðan ég kynntist fyrst djúpsjávarvatninu þeirra. Vatnið kemur frá ströndum Murato-höfða í Japan og er einstaklega ríkt af steinefnum. Ég spreyja vatninu á andlitið á daginn þegar mér finnst mig vanta raka og stöku sinnum á kvöldin eftir að ég tek farðann af. Hægt er að fá vatnið með mismunandi lykt; baldursbrá frískar upp á daginn og lofnarblóm (lavender) róar húðina fyrir svefninn.

Ég kynntist andlitspappírnum frá Muji fyrir stuttu og hann er fljótt að verða einn af aðalhlutunum í snyrtibuddunni minni. Pappírinn er í raun þunn blöð úr endurunnum pappa og hampi og kemur til bjargar þegar andlitið byrjar að glansa of mikið.

Erborian Sleeping BB Mask, 29,00 €
www.sephora.fr

Shu Uemura Depsea Water, 26,00 €
www.shuuemura.fr

Muji papier matifiant, 3,00 €
www.muji.eu

18Nauðsynjarnar / Les essentiels
Síðustu vikurnar hef ég (nær) eingöngu verið í flatbotna skóm. Að minnsta kosti á daginn til að hvíla fæturna fyrir langa daga og nætur á hælum. Ég get ekki hamrað nægilega mikið á mikilvægi þess að vera alltaf með flatbotna skó meðferðis á meðan tískuvikunni stendur.

Ég fer aldrei út án varasalvans míns og sérstaklega ekki þegar hitastigið er jafn breytilegt og það hefur verið undanfarnar vikur. Til þess að varaliturinn fari sem best þarf undirlagið jú að vera nokkuð gott. Ég get ekki dásamað Crème de rose varasalvann frá Christian Dior nægilega mikið. Ekki nóg með að hann veiti vörunum raka og næringu þá ilmar/bragðast hann eins og uppáhaldskakan mín hjá Ladurée, L’Isphan! (makkarónur með rósabragði, þeyttur rjómi, hindber og rósablaðahlaup).

Christian Dior Crème de Rose
25,50 € www.sephora.fr

 Afslöppunin / La détente
Í Mýrinni leynist vin í eyðimörkinni: Les bains du Marais. Spa, sána, veitingastaður, himnaríki! Besta lýsingin er „oriental chic“. Tveir klukkutímar í afslöppun og Hammam gufubaðinu og allt stress gufar upp. Einnig mjög góður staður fyrir litun og plokkun.

Les Bains du Marais
31, rue des Blancs Manteaux, 75004

20Kvöldin / Les soirées
Það er sjálfgefið að vissir staðir eru meira „chic“ en aðrir meðan á tískuvikunni stendur. Það er hægt að ganga að því vísu að hinn rússneski Raspoutine og barinn á W hótelinu verði þéttsetnir en ef það er einhver staður sem er hugsanlega biðraðarinnar virði þá er það Silencio. Barinn er hannaður af kvikmyndagerðamanninum David Lynch í anda Mulholland Drive, sem hann skrifaði og leikstýrði og nafnið er jafnframt komið þaðan. Barinn er „demi-privée“ sem þýðir að fram til miðnættis komast einungis skráðir meðlimir inn, en um leið og klukkan slær tólf standa allar dyr „opnar“.

Ef leitast er eftir örlítið afslappaðra andrúmslofti þá er Chez Jeanette góður kostur. Staðurinn er á mörkum annars og tíunda hverfis og er í raun bæði veitingastaður og bar. Matur er borinn fram til miðnættis og eftir það er leyfilegt að færa til borð svo dansinn geti hafist.

Silencio
142, rue Montmartre, 75002

Chez Jeannette
47, rue du Faubourg Saint-Denis, 75010

 

Teksti og teikningar: Hera Guðmundsdóttir, fashionista sem býr í París

Birtist fyrst í NUDE magazine #37

No Comments Yet

Comments are closed

 

LET'S GET SOCIAL!