Er Zara ógn við hátískuhúsin?

Nýrri kynslóð neytenda fylgja nýjar áherslur. Þannig hefur hugtakið lúxus fengið nýja merkingu, ekki er lengur einblínt á það hversu dýr varan er heldur hvað þú færð fyrir upphæðina sem þú greiðir. Tískumerki á borð við Zöru eru meðvituð um þetta og bjóða upp á flottar flíkur á viðráðanlegu verði fyrir hinn almenna kúnna. Flíkur sem svipa mjög til þeirra sem dýrari tískuhús á borð við Alexander Wang, Céline, Gucci, Givenchy og Stella McCartney bjóða upp á. Margir velta fyrir sér hvort Zara sé jafnvel orðin ógn við hin stærri tískuhús.

Zara1
Hvergi hefur verið farið leynt með þá staðreynd að tískuhús á borð við Zöru sæki sér innblástur af tískupöllunum. Enda eru það hátískuhúsin sem leggja línurnar að því sem koma skal í tískuheiminum.
En í hverju er þá munurinn fólginn? Einhverjir kynnu að segja gæðin. Spurningin er þá hversu mikið við erum tilbúin að greiða fyrir meiri gæði? Ef flíkin ber það ekki með sér að vera ódýr, hvers vegna ættum við þá að velja dýrari týpu?

 

Lengi hefur verið vel þekkt markaðsráð að hátt verð gefi vörunni ákveðinn gæðastimpil, eitthvað sem fínu tískuhúsin hafa nýtt sér óspart. Zara stílar hins vegar inn á verðbil sem breiður hópur neytenda hefur efni á auk þess sem gæðin eru í samræmi við verð. Þannig höfðar Zara til kúnnahóps sem leggur mikið upp úr gæðum en hefur minna ráðstöfunarfé en meðal Céline kúnni. Nú hafa lúxuskúnnarnir hins vegar tekið ástfóstri við Zöru í stórum stíl og það þykir flottara ef eitthvað er að blanda saman high-end og high-street vörum. Margir velja t.d. að ganga í fötum frá Zöru og fjárfesta síðan í tösku eða skóm frá dýrari merkjum og ná þannig fram heildarútliti sem virðist vera dýrara en það í raun er.

 

Zara er alltaf on-trend og jafnvel sneggri að setja flíkurnar í sölu en tískuhúsin með sínar línur sem veittu innblásturinn. Það segir heilmikið um hraðann hjá Zöru. Stundum tekur hugmynd ekki nema tvær vikur að komast í hillurnar, þess vegna getur Zara brugðist hratt við þegar trend nær flugi.

 

Screen Shot 2015-02-27 at 14.07.17Olivier Rousteing yfirhönnuður Balmain kann að meta þegar Zara sækir innblástur í hönnun sína. „Ég elska að sjá fötin mín sett saman við Proenza Schouler og Céline í gluggunum hjá Zöru. Það er algjör snilld, meira að segja betra en það sem við gerum. Ég elska stíliseringuna, söguna sem þau búa til… Ég skoða alltaf gluggana hjá þeim. Þegar við gerðum svörtu og hvítu köflóttu Miami-línuna þá vissi ég að hún myndi koma í Zöru. Og úfærslan var snilldarleg; munstrið frá Balmain en sniðið frá Céline. Vel gert!“

 

Zara vs. Proenza Schouler
Zara vs. Proenza Schouler

Svo virðist sem bilið á milli Zöru og dýrari merkja fari sífellt minnkandi og það hafa tískuritstjórar, stílistar, bloggarar og tískufyrirmyndir staðfest. Þetta fólk klæðist sjálft flíkum frá Zöru og notar þau í verkefni jafnvel þó að aðgangur að flíkum frá Balenciaga, Céline og fleirum sé greiður. Slíkt setur fordæmi fyrir hinn almenna kúnna sem sækir í auknum mæli í vörur frá Zöru.

Zara-Fifth-store-Elsa-Urquijo-Architects-New-York-02Mikið er lagt upp úr heildarútliti verslananna og alls sem keðjan sendir frá sér. Mikið er lagt upp úr fegurð, hreinleika, notagildi og sjálfbærni. Verslanirnar eru rúmgóðar og stílhreinar auk þess sem starfsmenn eru einkennisklæddir. Frægustu eða efnilegustu fyrirsæturnar hverju sinni eru fengnar í herferðir og „lookbooks“ sem koma út mánaðarlega og engu er til sparað. Allt gefur þetta keðjunni fágað yfirbragð og færir hana nær dýrari tískuhúsum.
Céline vs. Zara
Céline vs. Zara

Zara býður því upp á vörur sem svipa mjög til þeirra sem dýrari tískumerkin bjóða upp á en útlit verslananna og markaðsstefna svipar til hinna dýrari. Það má því segja að stefna og framsetning Zöru sé stöðugt að fikra sig nær því sem gengur og gerist hjá hinum dýrari tískuhúsum. Verðmiðinn segir nefnilega ekki alltaf allt.

No Comments Yet

Comments are closed

 

LET'S GET SOCIAL!